Eignasafn
Regins

Breyting á eignasafninu á árinu

 

Eignasafn Regins heldur áfram að þróast, eflast og stækka. Umfang eignasafns Regins jókst verulega á árinu 2016 og aldrei í sögu félagsins hefur eignasafnið styrkst jafn mikið á einu ári. Virði eignasafns Regins hefur aukist um 19 milljarða króna frá ársbyrjun 2016 til ársloka. Vegur þar þyngst fjárfesting í eignasafni CFV 1 ehf. og Ósvör ehf. fyrir um 10 milljarða króna. Einnig voru keyptar tvær eignir á Akureyri sem hýsa líkamsræktarstöðvar sem og allt verslunarrými í nýjum kjarna að Garðatorgi 4 í Garðabæ. Önnur minni kaup og sölur koma til á árinu sem ekki eru nefnd hér að framan. Áfram verður horft til styrkingar á eignasafninu með fjárfestingum í einstaka eignum sem og sölu á minni eða óhagstæðari eignum.

Eignfærðar fjárfestingar í eldri eignum félagsins, í tengslum við nýja og/eða endurnýjaða samninga, voru umfangsmiklar á árinu. Breytingar í austurenda Smáralindar sem stóðu yfir á haustmánuðum 2016 var þar umfangsmest, þar sem Hagkaup, Útilíf, Tiger og Síminn hafa opnað nýjar glæsilegar verslanir. Fleiri minni leigubil munu opna á næstu misserum. Breytingar að Tjarnarvöllum 11 og Hlíðasmára 1 fyrir hið opinbera voru stærstu leiguframkvæmdaverkefni ársins.

Matsbreyting - umfjöllun og aðferðir

  • Fasteignasafnið er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og er stuðst við sjóðstreymisgreiningu eins og tíðkast í fasteignafélögum.
  • Tekjur félagsins eru bundnar í langtímaleigusamningum sem eru verðtryggðir og því breytist tekju- og sjóðstreymi í samræmi við breytingar á vísitölu.
  • Ávöxtunarkrafa eiginfjár og vextir af lánsfjármagni er uppfærð miðað við stöðu á markaði. Matsbreyting er því eðlileg færsla á verðmætaaukningu fjárfestingareigna og er stærsti hluti langtímaskulda félagsins verðtryggður.
  • Við útreikning á matsbreytingu er stuðst við líkön og verklagsreglur sem hafa verið staðfest af óháðum ráðgjafa. Endurskoðendur félagsins og Endurskoðunarnefnd hafa fjallað um og yfirfarið mat á gangvirði.

Virði fasteigna eftir flokkum

Unnið hefur verið að því að jafna hlutdeild atvinnuflokka eignasafnsins til áhættudreifingar. Fjárfest hefur verið samkvæmt skýrri fjárfestingarstefnu og hafa ný eignasöfn verið skoðuð með það að leiðarljósi. Aldrei hefur verið jafnari skipting milli atvinnuflokka. Virði atvinnuflokka á fermeter er misjafnt eftir eðli og gæðum eigna.

Verslunar- og þjónustuhúsnæði er stærsti flokkurinn ef litið er til verðmæta, eða um 36% af heildarvirði fjárfestingareigna. Þar næst kemur skrifstofu- og atvinnuhúsnæði með 29%. Virði hótel-fasteigna, iðnaðar- og geymsluhúsnæðis sem og íþrótta- og afþreyingareigna er jafnt eða tæp 12% hver flokkur.

Stærð atvinnuflokka

Þegar horft er til hlutfalla eignaflokka eftir fermetrum eru hlutföllin mun jafnari á stærstu flokkunum. Skrifstofu- og atvinnuhúsnæði og verslun og þjónusta eru jöfn að hlutdeild og telja um 32% af heildar fermetrafjölda eignasafnsins. Iðnaðar og geymsluhúsnæði telur alls 19% og íþrótta- og afþreyingarhúsnæði um 12%. Hótel telja svo um 5% af heildar eignasafni Regins en vegur tvöfalt meira í hlutfallslegu virði eignasafnsins í heild.