Ávörp og
stjórn

Ávarp stjórnarformanns

Vöxtur byggður á sterkum rekstri

Reginn skilar góðri afkomu á árinu 2016 sem var þó mjög litað af miklum umbreytingum og framkvæmdum í mörgum af stærstu eignum félagsins. Hagnaður eftir skatta nam 4.243 milljónum króna. Leigutekjur ársins 2016 námu 6.111 milljónum króna og hækka um 22% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður hefur einnig aukist frá fyrra ári eða um 12%.

Sterkt sjóðstreymi gerir félaginu kleift að fjárfesta mikið á hverju ári, bæði í nýjum eignum sem og endurskipulagningu eldri eigna. Á fyrrihluta ársins keypti félagið tvö eignasöfn og greiddi fyrir með eigin hlutum að undangenginni hlutafjáraukningu. Var það stærsta einstaka fjárfesting félagsins frá stofnun. Var þar nýtt sú þekking sem myndast hefur innan Regins við yfirtöku á eignasöfnum sem ekki eru fullþróuð og gefa tækifæri til framtíðar. Reginn hefur skapað sér sérstöðu sem einn af öflugri þátttakendum í uppbyggingu íslensks atvinnulífs á sviði fasteigna.

Benedikt K. Kristjánsson
Eignasafn Regins hefur meira en tvöfaldast frá skráningu félagsins á hlutabréfamarkað árið 2012 þegar eignasafnið taldi 153 þúsund fermetra. Fasteignasafnið telur nú 316 þúsund fermetra og virði eignasafnsins er orðið rúmlega 83 milljarðar króna. Virði eignasafns Regins hefur rúmlega þrefaldast frá skráningu.
Það hefur sýnt sig að sú áhersla sem stjórn hefur sett á styrkingu og eflingu félagsins hefur verið félaginu hagsæl.

Traustur aðili á hlutabréfamarkaði

Reginn var eitt af fyrstu félögunum sem skráð var í kauphöll í kjölfar uppbyggingar efnahagslífsins og tók þar með þátt í endurreisn hlutabréfamarkaðarins. Á hlutabréfamarkaði er nauðsynlegt að hafa fjölbreytt úrval fyrirtækja sem fjárfestingarkost og hefur Reginn sannað sig sem traustur og góður fjárfestingarkostur. Í sterkri hagsveiflu eins og við erum stödd í nú eru fasteignir og fasteignafélög traustir, stöðugir og oft álitlegir fjárfestingarkostir. Með frekari styrkingu félagsins hefur félagið eflst og orðið enn betri valkostur fyrir fjárfesta.
 
Fyrir hönd stjórnar Regins þakka ég starfsmönnum og stjórnendum Regins fyrir gott starf á árinu 2016. Einnig vil ég þakka hluthöfum traustið sem þeir hafa sýnt stjórn og stjórnendum félagsins í þeim verkefnum sem ráðist hefur verið í á liðnu ári og býð ég nýja hluthafa velkomna í hópinn. Að lokum þakka ég öllum viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir samstarfið á árinu.

Ávarp forstjóra

 Árið 2016 var gott og jafnframt eitt það viðburðarríkasta frá stofnun félagsins. Félagið stóðst í megindráttum áætlanir ársins, undantekning frá því voru smávægileg tekjufrávik og lægri EBITDA því samfara. Frávik voru tilkomin vegna lægri tekna í Smáralind í kjölfar hraðari endurskipulagningar. Þessi frávik voru kynnt eftir Q3.

Merkasti áfanginn á árinu var gerð tveggja leigusamninga við sænska verslunarrisann H&M. Annar um flaggskipsverslun í Smáralind og hinn um verslun á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Með samningunum lauk þriggja og hálfs árs ferli sem var þaulskipulagt í öllum smáatriðum.

Helgi S. Gunnarsson

 Nýta hagsveifluna sem best

Aldrei hefur verið skrifað undir leigusamninga um jafnmarga fermetra og árið 2016, eða um 58.000 fermetra. Rúmlega helmingur þeirra samninga voru nýir leigusamningar en aðrir voru endurnýjun eldri samninga. Framhald var á góðum árangri við að semja við opinbera aðila um leigu á atvinnuhúsnæði. Á árinu 2016 voru tvær byggingar teknar í notkun fyrir opinber fyrirtæki eftir gagngerar breytingar. Þetta voru Hlíðasmári 1 sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú tekið í notkun og Tjarnarvellir 11 sem Þjóðminjasafnið tók við undir varðveislu- og rannsóknarsetur um mitt ár 2016. Nú standa yfir framkvæmdir fyrir Vinnueftirlitið að Dvergshöfða 2. Að auki hefur verið skrifað undir samning við Reykjavíkurborg um uppbyggingu og leigu á alhliða íþróttahúsi við Egilshöll sem mun rúma tvo handboltavelli í fullri stærð og keppnisvöll með áhorfendastúkum.

Árið 2016 var sannkallað fjárfestingarár. Í upphafi árs keypti Reginn tvö fasteignasöfn, CFV 1 ehf. og Ósvör ehf. Er þetta stærsta einstaka fjárfesting í eignasafni/söfnum sem Reginn hefur ráðist í frá stofnun félagsins. Eignasöfnin voru metin á rúma 10 milljarða króna. Einnig hefur verið fjárfest fyrir 4,5 milljarða króna í uppbyggingar- og leiguverkefnum. Ber þar helst að nefna framkvæmdir við austurenda Smáralindar þar sem Hagkaup, Útilíf, Síminn og fleiri aðilar opnuðu glæsilegar nýjar verslanir síðla árs 2016. Einnig voru verulegar fjárfestingar tengdar fyrrnefndum leigusamningum að Tjarnarvöllum 11 og Hlíðasmára 1. Það hefur sýnt sig að arðbærustu verkefni Regins eru oft á tíðum umbreyting og þróun eigin eigna.

Byggingaframkvæmdir á Hafnartorgi fóru á fullan snúning á árinu 2016. Nýjir aðilar komu að verkefninu á árinu sem hafa gríðarlega mikla reynslu af byggingaframkvæmdum. Framkvæmdum miðar vel og er áætlað að Reginn fái verslunar- og þjónusturými afhent til innréttinga snemma árs 2018

Eins og nefnt var í upphafi var skrifað undir tvo leigusamninga við einn eftirsóttasta leigutaka Íslandssögunnar, H&M. Samningatæknin í því verkefni snerist um að „selja Ísland“ sem viðskiptatækifæri. Reginn ruddi þar með leiðina fyrir opnun fleiri H&M verslana á Íslandi. Eins og áður sagði verður flaggskipsverslunin staðsett í Smáralind.

Á árinu var unnið að undirbúningi vegna endurfjármögnunar á stórum hluta eignasafnsins. Fyrirhugað er að endurfjármögnun standi yfir á árinu 2017.

Innri starfsemi

Miklar breytingar voru gerðar á skipulagi og innri starfsemi félagsins. Helst ber að nefna úthýsingu á rekstri í fasteignum í Smáralind og Egilshöll. Um er að ræða ræstingar og þrif, sorp og förgun, þjónustuborð, öryggismál, hús- og baðvörslu ásamt hluta af rekstri og viðhaldi fasteigna auk orkustýringar. Samið var við ISS Ísland ehf. um að veita þessa þjónustu en við samninginn yfirtók ISS ráðningasamninga við starfsfólk Regins og dótturfélaga. Í árslok er starfsfólk Regins og dótturfélaga alls 26, þar af eru 6 starfsmenn sem starfa beint við Smáralind og Egilshöll.

Áhersla var lögð á að efla áhættuvitund stjórnar og stjórnenda. Bæta verkferla, styrkja upplýsingakerfi og gera stjórnskipulag hnitmiðara.

Í byrjun ársins 2016 fór fram stefnumótun fyrir Regin. Stefnumótunin var unnin í þéttu samstarfi stjórnarmanna, stjórnenda og starfsmanna félagsins. Ný og endurskoðuð stefnumótun var gott veganesti fyrir félagið á árinu.

Áfram hefur verið unnið að sölu minni og óhagkvæmari eigna frá félaginu og aðrar eignir endurskipulagðar til að hæfa betur þeim markmiðum sem sett hafa verið.

 

 

Stjórn Regins

Stjórnarformaður

Benedikt K. Kristjánsson

Í stjórn frá desember 2012

Fæðingarár: 1952

Menntun: Meistarapróf í kjötiðn og námskeið í verkefna- og rekstrarstjórnun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Er í námi hjá Rannsóknarstofnun  Háskóla Íslands í viðurkenndum stjórnarháttum. Námi lýkur í mars.

Aðalstarf:  Sölu og þjónustufulltrúi hjá Innnes ferskvöru ehf.

Starfsreynsla: Forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Samkaupa hf. og þar áður sem innkaupa- og rekstrarstjóri. Á árunum 1987 – 1999 starfaði Benedikt sem sjálfstætt starfandi kaupmaður.

Önnur stjórnarseta:  í aðalstjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Endurvinnslan hf. (varamaður). Formaður Kaupmannsamtaka Íslands.

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Engin

Hagsmunatengsl: Er  í aðalstjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna sem er eigandi að 12.88% hlut í Reginn hf. 

Varaformaður

Tómas Kristjánsson

Í stjórn frá apríl 2014

Fæðingarár: 1965

Menntun: MBA frá háskólanum í Edinborg 1997, Cand. Oecon. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1989, löggiltur verðbréfamiðlari 2001.

Aðalstarf: Starfar sem annar eiganda Siglu ehf.

 Starfsreynsla: Starfandi annar eigandi hjá Siglu ehf. og Klasa ehf. frá árinu 2007, 1998-2007 framkvæmdastjóri áhættustýringar, fjárstýringar og reikningshalds hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, síðar Glitni banka, 1990-1998 yfirmaður lánaeftirlits Iðnlánasjóðs.

Önnur trúnaðarstörf og stjórnarseta: Sigla ehf. (meðstjórnandi), Klasi ehf. (stjórnarformaður), Klasi fjárfesting ehf. (stjórnarformaður), Gani ehf. (stjórnarformaður), Elliðarárvogur ehf. (stjórnarformaður), Heljarkambur ehf. (stjórnarformaður), Nesvellir ehf. (meðstjórnandi), NV lóðir ehf. (meðstjórnandi), NVL ehf. (meðstjórnandi), Draupnir-Sigla ehf. (meðstjórnandi), Sjóvá almennar tryggingar hf. (meðstjórnandi), SF1 slhf. (meðstjórnandi) og Grunnur I hf. (meðstjórnandi), Smárabyggð ehf. (stjórnarformaður) og Húsafell Resort ehf. (meðstjórnandi) .

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Sigla ehf., sem Tómas á helmingshlut í, á 100.000.000 hluti í félaginu eða 6,43%.

Hagsmunatengsl: Engin hagsmunatengsl eru við stærstu viðskiptavini félagsins, keppinauta þess eða hluthafa sem eiga meira en 10% í félaginu.

Meðstjórnandi

Albert Þór Jónsson

Fæðingarár: 1962.

Menntun: Viðskiptafræðingur, Cand. Oecon frá Háskóla Íslands 1986 og með MCF - meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík 2014. Með próf í verðbréfaviðskiptum og löggildingu í fasteignaviðskiptum.

Aðalstarf: Sjálfstætt starfandi.

Starfsreynsla: Er sjálfstætt starfandi. Var áður framkvæmdastjóri hjá FL Group frá 2005-2007, forstöðumaður eignastýringar LSR (Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins) 2001-2005, forstöðumaður verðbréfamiðlunar Fjárvangs hf. 1998-2001, forstöðumaður hjá Landsbréfum í fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun 1990-1998 og fjármálaráðgjafi hjá Glitni – kaupleigu 1986-1990.

Önnur stjórnarseta: Gneis ehf. (stjórnarmaður) og Cibus ehf. (stjórnarmaður).

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Albert á 10.000 hluti í félaginu eða 0,0006429%.

Hagsmunatengsl: Engin hagsmunatengsl eru við stærstu viðskiptavini félagsins, keppinauta þess eða hluthafa sem eiga meira en 10% í félaginu.

Meðstjórnandi

Bryndís Hrafnkelsdóttir

Í stjórn Regins frá apríl 2014

Fæðingarár: 1964

Menntun: Viðskiptafræðingur Cand. Oecon 1989 og. og M.S. gráða í viðskiptafræði 2015 frá Háskóla Íslands   

Aðalstarf:  Forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands frá 2010.

Starfsreynsla: Landfestar fjármálastjóri frá 2008-2010, Kaupþing banki hf. sérfræðingur á fjármálasviði samstæðu frá 2007-2008, Debenhams á Íslandi, framkvæmdastjóri 2000-2006, Hagkaup fjármálastjóri frá 1996-2000, Hof eignarhaldsfélag aðalbókari frá 1994-1996 og KPMG endurskoðun og bókhald frá 1990-1993.

Önnur stjórnarseta:  Formaður skólanefndar Verslunarskóla Íslands frá 2006, Ofanleiti 1 ehf. (stjórnarformaður) frá 2011, TM frá 2011 (varastjórn), Gjörð fjárfestingafélag (meðstjórnandi) frá 2015, Pfaff hf. 2007-2012 (meðstjórnandi).

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Engin

Hagsmunatengsl: Engin hagsmunatengsl eru við stærstu viðskiptavini félagsins, keppinauta þess eða hluthafa sem eiga meira en 10% í félaginu.

Meðstjórnandi

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir

Í stjórn frá apríl 2014

Fæðingarár: 1977

Menntun: MBA frá Copenhagen Business School, Héraðsdómslögmaður og Cand. Jur frá Háskóla Íslands.

Aðalstarf: Framkvæmdastjóri smásölusviðs Olís hf.

Starfsreynsla: Forstöðumaður fyrir fjárfestingabankasvið Arionbanka (2011-2014), Framkvæmdastjóri Skilanefndar og Slitastjórnar Sparisjóðabankans (2009-2011), Senior Vice President, Straumur Fjárfestingabanki (2008-2009). Framkvæmdastjóri, Atlas Ejendommea/s í Kaupmannahöfn (2004-2008).

Önnur stjórnarseta:  Ígló og Indí ehf. (meðstjórnandi). 

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Engin

Hagsmunatengsl: Engin hagsmunatengsl eru við stærstu viðskiptavini félagsins, keppinauta þess eða hluthafa sem eiga meira en 10% í félaginu.

Varamaður

Finnur Reyr Stefánsson

Í stjórn frá apríl 2014

Menntun: BS í hagfræði 1992 frá Háskóla Íslands og MBA í fjármálum frá Virginia Tech 1994. Löggiltur verðbréfamiðlari 2001.

Aðalstarf: Starfar sem annar eigenda Siglu ehf. frá vori 2007

Starfsreynsla:  Framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Glitnis 2006-2007. Framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Íslandsbanka – FBA (Glitnis banka) 2000-2006. Sérfræðingur í áhættustýringu Fjárfestingarbanka atvinnulífssins 1998-1999. Sjóðsstjóri verðbréfasjóða og hlutabréfasjóða Landsbréfa 1994-1997. Varamaður í stjórn Regins hf. frá 2014. 

Önnur trúnaðarstörf og stjórnarseta: Kvika banki hf. og ýmis dótturfélög Siglu.

 

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Sigla ehf., sem Finnur á helmingshlut í, á 100.000.000 hluti í félaginu eða 6,43%.

Hagsmunatengsl: Engin hagsmunatengsl eru við stærstu viðskiptavini félagsins, keppinauta þess eða hluthafa sem eiga meira en 10% í félaginu.

 

Varamaður

 Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir

Í stjórn Regins frá apríl 2013 og formaður endurskoðunarnefndar frá desember 2013.

Menntun: M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og B.Sc. í hagfræði frá sama skóla.

Aðalstarf: Sjálfstætt starfandi

Starfsreynsla: Framkvæmdastjóri endurskipulagningar eigna hjá Landsbankanum 2010-2012 og framkvæmdastjóri Bíla- og tækjafjármögnunar hjá Landsbankanum 2011-2012. Ráðgjafi fjármálaráðherra frá 2009-2010. Hagfræðingur hjá Íslandsbanka og Seðlabankanum frá 1999.

Önnur trúnaðarstörf og stjórnarseta: Fjármálaráð.

Hlutafjáreign í Reginn hf.: Engin

Forstjóri

Helgi S. Gunnarsson

Helgi hefur verið forstjóri félagsins frá því það hóf starfsemi á vormánuðum 2009.

Fæðingarár: 1960

Menntun: M.Sc. í verkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet, 1993. Byggingatæknifræðingur frá Háskólinn í Reykjavík, 1986. Hefur lokið prófum sem húsasmiður og húsasmíðameistari. 

Starfsreynsla sl. ár: Framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Portusar ehf. og dótturfélaga frá 2006-2009. Framkvæmdastjóri Nýsis Fasteigna ehf. og dótturfélaga þess á árunum 2005-2006. Sviðsstjóri framkvæmdasviðs VSÓ ráðgjafar ehf. og einn af eigendum þess 1989-2004.

Núverandi stjórnarseta: Öll dótturfélög Regins.

Hlutafjáreign: Helgi á 121.952 hluti í félaginu.

Stjórnendur félagsins

Björn Eyþór Benediktsson

Eyþór stýrir einingunni Upplýsingar og greining. Hann hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2014 við greiningar, upplýsingavinnslu og þátttöku í viðskiptaþróun.

Áður starfaði Eyþór á framkvæmdasviði Vegagerðarinnar sem verkfræðingur B.Sc.

Eyþór er fjármálahagfræðingur M.Sc. frá Háskóla Íslands, 2012 og B.Sc. í umhverfis- og byggingarverkfræði, 2011. Eyþór lauk einnig sveinsprófi í húsasmíði 2006.

Dagbjört Erla Einarsdóttir

Dagbjört er lögmaður félagsins og hóf störf í apríl 2016. 

Áður starfaði Dagbjört í 6 ár hjá lögmannsstofunni Juris slf. og 3 ár á einkabanka- og lögfræðisviðum Landsbankans hf. 

Dagbjört lauk meistaraprófi (mag.jur) frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2007 og námi til öflunar réttinda til héraðsdómslögmanns sama ár.

Guðlaug Hauksdóttir

Guðlaug er yfirmaður reikningshalds hjá félaginu og hefur starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði félagsins frá árinu 2010.

Áður starfaði Guðlaug í 9 ár hjá Viðskiptablaðinu, síðast sem fjármálastjóri.

Guðlaug er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, 2002.

Jóhann Sigurjónsson

Jóhann hefur verið fjármálastjóri félagsins frá árinu 2012 og er hann einnig staðgengill forstjóra.

Áður hefur Jóhann starfað sem fjármálastjóri Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf., HB Granda hf. og Pharmaco hf. Jóhann var einnig bæjarstjóri Mosfellsbæjar í 8 ár.

Jóhann er viðskiptafræðingur Cand.oecon frá Háskóla Íslands 1984.

Páll V. Bjarnason

Páll starfar sem framkvæmdastjóri Regins Atvinnuhúsnæðis. 

Páll er byggingaverkfræðingur M.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík 2011 og byggingatæknifræðingur frá sama skóla 2009. Páll er einnig menntaður húsasmiður og hefur lokið bæði sveins- og meistaraprófi.

 

Rúnar Hermannsson Bridde

Rúnar er sviðstjóri Útleigusviðs.  Rúnar hefur starfað í útleiguteymi Regins frá árinu 2014.

Áður starfaði Rúnar sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs hjá 66°Norður og sölu og markaðsstjóri hjá Ingvari Helgasyni BL.

Rúnar er viðskiptafræðingur frá Tækniháskóla Íslands, 2004 og iðnrekstrarfræðingur frá sama skóla 2003.

Sturla Gunnar Eðvarðsson

Sturla hefur verið framkvæmdastjóri eignarhaldsfélags og rekstrarfélags Smáralindar frá árinu 2010.

Sturla var áður framkvæmdastjóri Samkaupa, forstöðumaður verslunarsviðs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Sturla er rekstrarfræðingur frá Samvinnuháskólanum á Bifröst 1992.