Árangur í opinberum útboðum
Nokkuð hefur verið um að opinberir aðilar hafi óskað eftir tilboðum í leiguhúsnæði til næstu 10 - 25 ára. Reginn hefur lagt mikinn metnað í gerð tilboða. Mikill og góður árangur hefur náðst í þessum útboðum og tilboðum félagsins verið tekið í flestum tilvikum. Auk þess að hafa boðið húsnæði sem til var á lager þá hefur með þekkingu innanhúss hjá Regin sem og hjá ráðgjöfum tekist vel til við að hanna og aðlaga húsnæði að útboðslýsingum útboðsaðila og oftar en ekki tekst að auka gæði og kosti nýs húsnæðis umfram fyrirfram mótaða útboðslýsingu. Með þessu hefur hið opinbera nýtt gott tækifæri í samstarfi við þekkingar aðila á markaði til að hámarka gæði lausnanna með samstarfi við einkaaðila.
Alls hafa opinberir aðilar skrifað undir leigusamninga um 10.500 fermetra á síðasta ári.
Smáralind
Á liðnu ári var unnið að umfangsmiklum verkefnum tengd endurskipulagningu í Smáralind. Í austurenda, þ.e. svokölluðum Hagkaupsenda, var skipulagi breytt og m.a. matvöruverslun Hagkaupa nær helminguð sem skapaði aukið rými. Með lengingu göngugötu hefur tekist að skapa fjölda nýrra útleigurýma sem að stærstum voru opnuð í lok ársins og aðilar sem fyrir voru í húsinu hafa þar opnað nýjar og glæsilegar verslanir. Verslanir Símans, Útilífs, Vínbúðarinnar og Tiger hafa flutt sig til og opnað verslanir í austurenda sem skapa tækifæri að endurskipuleggja þau rými sem þær verslanir voru í áður.
Tekist hefur að landa þekktum erlendum keðjum hingað til lands í bland við sterka innlenda aðila og skapa sterka heild í nýrri Smáralind til framtíðar. Einn veigamesti lykill í endurskipulagningu Smáralindar var að tryggja sterkan leigutaka í vesturenda Smáralindar sem myndi draga að viðskiptavini. Í júlí skrifaði Reginn undir leigusamninga við H&M sem mun opna ankerisverslun í Smáralind í september 2017. Minni útleigubil sem hafa losnað hefur verið haldið frá leigu um sinn til að heildarskipulag og verslunarflóra verði sem næst þeirri mynd sem sóst er eftir.
Ytri áhrif hafa gríðarleg áhrif á verslun í Smáralind. Með tilkomu Íslandsbanka og annarra leigutaka í Norðurturni Smáralindar eykst gestafjöldi til muna í alla þjónustu og verslun í húsinu. Á næstu árum mun uppbygging 620 íbúða í Smárabyggð og uppbygging á Glaðheimasvæðinu einnig styrkja verslun og þjónustu í Smáralind til framtíðar og festa svæðið í kringum Smáralind betur í sessi sem miðpunkts höfuðborgarinnar m.t.t. atvinnu, verslunar, þjónustu og samgangna.
Smárabyggð
Samþykkt hefur verið deiliskipulag sunnan Smáralindar þar sem hámarks byggingarmagn er 84.000 fermetrar. Stærstur hluti þess eru íbúðir sem verða allt að 620 talsins. Einnig er áætlað að verslunar- og þjónustuhúsnæði verði um 13 þúsund fermetrar. Reginn verður eigandi alls atvinnuhúsnæðis á svæðinu sem og hluta íbúðarbyggðarinnar.
Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., dótturfélag Regins, og Smárabyggð ehf. sem eigendur lóðanna sunnan Smáralindar hafa skrifað undir þríhliða samkomulag við Kópavogsbæ um uppbyggingu á svæðinu sem mun eiga sér stað á næstu 8 árum. Fyrirséð er að framkvæmdir á fyrstu lóðunum hefjist nú með vorinu 2017.
Hafnartorg
Ein viðamesta einstaka fjárfesting félagsins til framtíðar er Hafnartorg í miðbæ Reykjavíkur. Sá hluti Hafnartorgs sem Reginn festi kaup á árið 2014 er allt verslunar- og þjónusturými á 1. og 2. hæð. Reginn fær eignina afhenta tilbúna til innréttinga 2018 og verður hún tilbúin til útleigu um mitt ár 2018. Megin hluti fjárfestingarinnar fellur til á árinu 2017 og 2018 samhliða framvindu byggingaframkvæmda.
Nýjr aðilar komu að verkefninu á árinu 2016 sem hafa mikla reynslu af uppbyggingarverkefnum. Mikill gangur var í byggingaframkvæmdum seinnihluta ársins 2016.
Egilshöll
Egilshöll er ein af stærstu eignum Regins og liggja þar mikil tækifæri til framtíðar. Alls er um 34 þúsund fermetra byggingamagn nú þegar. Skrifað hefur verið undir samning við Reykjavíkurborg um uppbyggingu og útleigu á nýju alhliða íþróttahúsi sem mun rúma tvo handboltavelli í fullri stærð til æfinga sem og ýmsa aðra íþróttastarfsemi.
Egilshöll hefur sannað gildi sitt sem íþrótta- og afþreyingarmiðstöð og blómstra þar saman íþróttastarf, afþreying og þjónusta. Í Egilshöll er eitt glæsilegasta bíó landsins og World Class starfrækir þar eina af sínum líkamsræktarstöðvum auk þess sem sólbaðsstofa og hársnyrtistofa opnuðu á síðasta ári. Keiluhöllin í Egilshöll hefur oft verið nefnd ein sú besta í Evrópu og voru þar Evrópumeistaramót í keilu þar árin 2014 og 2016. Gestafjöldi í Egilshöll hefur aukist verulega undanfarin ár og var gestafjöldi á árinu 2016 rúmlega 1,2 milljónir.
Áfram verður unnið að endurskoðun á heildarskipulagi Egilshallar með öllum hagsmunaaðilum á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg og Fjölni, auk Regins. Mikill ónýttur byggingaréttur er enn til staðar á lóðinni.